Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilega hátíð

Gleðilega jólahátíð öll.

Vona að þið njótið blessaðra jólanna.

VIð náðum takmarkinu á Brúarfossi, komumst heim til að vera heima á Aðfangadagskvöld.

Förum aftur á annan dag jóla , komum í janúar. Þá taka við flutningar hjá mér, og svo gæslan á ný.

 

Óska ykkur líka árs og friðar. Þakka líðandi ár , sem og aðrar liðnar stundir.

Eins og oft var sagt á gufunni í gamla daga

Lifið heil! Smile


Jólin jólin allstaðar

 100_0020

Já jólin jólin allstaðar segir í teksta Jóns Bassa. Hef verið að hugsa um þetta núna. Jólin hafa alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig, ekki þó á sama hátt alltaf.

Sem barn var það vitanlega hátíðleikinn og gjafirnar. En eins og svo margt í mínu lífi, þá virðist ég snúa svo mörgu á haus, á meðan margir fara í kirkjukóra og kirkjustarf á efri árum, þá tók ég það út á yngri árum. Átta ára gamall var ég farinn að syngja í sópraninum í kórnum heima í Akraneskirkju, síðar fór ég niður í bassan og endaði í tenornum. Fram á unglingsár söng ég þar öll jól, og þar voru messur í kirkjunni , elliheimili, sjúkrahúsi og þessháttar. Ein jólin sungum við í Betlehem á jólanaótt, gjrösamlega ógleymanlegt. Síðar tók við söngur í Bústaðakirkju, Dómkirkjunni og síðast sem organisti við Keflavíkurkirkju í 11 ár. Aðventan og jólin voru söngur og tómlist út í eitt. Dásamlegur tími. Smile Hin síðari ár hef ég verið að raula með í mínum söfnuði í Landakotskirkju en ekki verið mikið heima við um jól.

En síðustu jól síðan ég hætti í Keflavík, hef ég verið mest á sjó um jól. Hef verið á sjónum á jólanótt á Humber fljóti, í Norðursjónum og víðar.Ein jól kaus ég að vera einn. Og vitið þið hvað, jólin komu samt. Þau læðast til manns inn í hugskotið.........bara ef ég helypi þeim inn. Þetta er ekki spurning um hið ytra, heldur hið innra.

Með þessu vil ég EKKI gera lítið úr hinu ytra, sem er bráðnauðsynlegt til að viðhalda stemingu og undirstrika hátíðina. En oft má nú ofgera því sem og öðru. Finnst gaman að upplifa það hversu margir hafa snúið sér að því að njóta aðventunnar, í stað þess að slíta sér út. Ég man þá tíð að það þótti hneisa ef húsfreyjur bökuðu ekki svona 23 sortir af smákökum, vo lagtertur og randalín og Guð má vita hvað. Enginn tími til að éta þetta fyrir stressi, svo mátti það ekki gerast á jólunum. Svo þegar jólin loksins komu þá hafði enginn lyst á öllum sortunum og megnið af þessu var hent að lokum.

Sama var með hreingerningar, allt var heingert út úr dyrum, eins vitlaust og það er á dimmasta tíma ársins að fálma í myrkrinu með tuskuna, nær að bíða með það til vors eins og Hrönn vinkona mín í Keflavík sagði.

Allavega blesuð jólin koma, hvernig svo sem við látum.

Ég kom heim af sjónum í gær, er að fara aftur í kvöld. Við ætlum að reyna að komast heim fyrir aðfangadag, ef veður leyfir. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því.

Jólin jólin allstaðar,  þau eru nefnilega allstaðar, vonandi njótum við öll aðventunnar, hvert á okkar hátt Grin

Gleðileg jól til ykkar allra.

 


Höfrungur

Þetta er ekki bakugi á hnýsu. Þetta er höfrungur, mjög sennilega blettahnýðir, sem er algengasta höfrungategund við landið. Oft í gríðar stórum hjörðu.
mbl.is Sjaldséður gestur að hnýsast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að gerast í bloggheimum

100_0254Það er alltaf gaman að renna í gegn um bloggsíðurnar, sérstaklega þegar ég er úti á sjó. Þar get ég ekki einhverra hluta vegna ekki bloggað sjálfur, en fer vítt og breitt um bloggheima sem algjör þiggjandi. Það er mjög skemmtilegt. Stend mig að því að sneiða hjá þessum endalausu vandamála og heimsendabloggum. Gurrý, Jóna, Jenný, Stormsker og aðrir viðlíka bloggarar eru algjör snilld, ( þið hin sem ég nefni ekki sorrý, ekkert perónulegt, bara þessi koma upp i hugan í augnablikinu er nýkominn úr heimsókn á þeim síðum).

Allavega ég þarf á þessum húmor og bjartsýni að halda. Sum bloggin hreint og beint beina mér beint í táradalinn, þar sem sólin skín aldrei og allt er að fara fjandans til og enginn veit neitt í sinn haus nema ofurvitsmunaveran sem á viðkomandi bloggsíðu.

Þekki það sem óvirkur alki, að "æ ó eymingja ég" og "fram þjáðir menn" og " Guð minn Guð ég hrópa, gegn um myrkrið svarta, líkt og út úr ofni æpi stiknað hjarta" (M Joch. orti það, er viss um að hann hefur verð glertimbraður við þá yrkingu), slíkir þemasöngvar eru söngvar fórnarlambanna. Vitanlega þarf maður að gera sér grein fyrir því sem aflaga fer í þessum heimi, en maður verður að passa sig á Kristssyndrominu, sem lýsir sér í því að, maður fer að bera ósýnilegan kross þar sem allur heimurinn er krossfestur . Er stundum hugsi þegar ég les sum blogg yfirlýsts trúfólks sem er fast í þeim pakkanum að bera krossinn, og sjá fjandann í hverju horni. Þá hugsa ég stundum " í hverju var frelsunin fóglin?".

En blessunarlega(þökk sé leynifélaginu þar sem nafnleyndin ríkir) þá eru nokkur ár síðan ég flutti úr táradalnum og lög eins og "nú liggur vel á mér"  og " öll él birtir upp um síðir" eiga betur við í mínu lífi í dag.

Allavega , allt að gerast og fullt af góðum hlutum í gangi. Alltaf einhverjir skuggar, nema hvað, en þá nýtur maður bara betur sólarinnar á milli.

Er í landi fram á mánudag.

 


Nóvembertúr framundan

011ee55cf1176a99cec4dcc4765ace0dVindurinn gnauðar á glugganum. Gott að vera heima við kertaljós og notalegheit. Ég er sennilega að ganga frá íbúðarkaupum, þannig að sennilega eru rúmir 2 mánuðir til flutninga. Alltaf mikið mál fyrir mig að flytja. Ég virðist festa rætur þar sem ég bý mér heimili.  Mér þykir versti tíminn vera ákkurat eftir að ég hef tekið ákvörðun, og þar til ég er svo fluttur. Ég verð eins og í lausu lofti, þangað til.

Held ég kvíði mest fyrir því að fara að henda. Já henda einhverju drasli sem ég sé einhver verðmæti í. Yfirleitt eitthvað verðlaust drasl sem ég er búinn að pakka inn í tilfinningaumbúðir. Alveg ótrúlegt að maður skuli gera þetta aftur og aftur. Ekki svo að skilja að ég sé að safna rusli hehe, frekar að það virðast safnast til mín allskonar dót, sem ég tengi svo aftur við fólk sem gefur mér þetta eða ég tengi við með einhverju móti.

Svo eru það bækurnar mínar sem ég verð að hafa hjá mér. þær taka í við flutningana Cool, svo er það að drösla píanóinu á sinn nýja stað. Það er meira en að segja það að drösla heilli slaghörpu upp á 4. hæð. En........... þetta er verkefni sem á að leysa í janúar en ekki hér.

Framundan varðskipstúr. Typiskur vetrartúr , mikið af myrkri og allra veðra von. Gaman að vera tengdur við náttúruöflin. Get lítið bloggað á sjónum, en kíki við og les bloggin hjá hinum.

Allavega ein góð innivera bráðum á enda. Sjáumst Kissing.


Af hafi og heim

Jæja þá er ég heima í inniveru. Fer aftur á mánudag.Akranes

Komum við í Færeyjum í þessum túr. Alveg frábært samfélag þarna úti í Færeyjum. Einhver stemming sem rímar við hvernig það var á Skaganum í gamla daga.

Hef verið að hugsa um það oft, hversu miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu hérna á mínu æviskeiði. Breytingarnar sem mín kynslóð upplifir er kannski óáþreifanlegri en margar aðrar breytingar, vegna þess að það eru ekki bara breytingar á tækni og tólum sem ráða för þar, heldur er það grunnurinn í þjóðarsálinni sem er að breytast.

Ég er til að mynda alinn upp í samfélagi hvar ungir menn sóttu sér fyrirmyndir í aflamenn og sjósóknara, duglega iðnaðarmenn og auðvitað í boltann sem er náttúrulega ekki nema eðlilegt á SKaganum. Semsagt fyrirmyndirnar voru fólk sem komst áfram, fyrir eigin dugnað og verk. Við skildum það að til að eignast eitthvað þurfum við að framkvæma eitthvað. Vinna semsagt. Útskipanir, beitning, gella, bera út blöð. Verðmætin voru þar með áþreifanleg.

Allir voru að vinna. Í hádeginu var ös á meðan hið vinnandi fólk fór heim í mat. Rútur merktar HB&co, Heimaskaga, Haferni og fleirum á ferðinni á slaginu 12. Í sjálfu hádeginu varð þögn á meðan suðan kom upp á kartöflum og soðningu, nú eða grautarspón. Soðningarilmurinn fyllti götur og stíga. Þögnin varð rofin af síðasta lagi fyrir fréttir, síðan blandaðist saman glamur á diskum við fréttalestur ríkisútvarpsins . Á sunnudagsmorgnum var hátíðleikinn fólginn í lykt af steiktu læri, sól á lofti, útvarpsmessan spilaði undir. Eftir hádegið ómuðu klukkur Akraneskirkju yfir bæinn. 3 bíó í Bíóhöllinni allir í sparifötunum.

Á veturnar stillur, kalt og hvítt. Reykur úr strompum. Spyrðubönd héngu á bíslögum og snúrustaurum. Vorboðinn var grásleppan sem seig í vorsól, svo kom lóan að kveða. Börnin í sveit eða að vinna og vinna og þar með læra að til að eiga þá þarf að gera og framkvæma. Á skrokk og sál merkti fólk hvers virði hlutir voru.

Fólk kíkti í kaffi. Tekið í spil. Málin rædd. Munur á spari og hversdags. Gos með matnum sjaldgæfur munaður og til ómældrar gleði. Lítið þurfti til að gleðjast við og með.

Samkennd og samhugur. Meira gert af því að samgleðjast en sundra. Alþýðumenningin sönn. Hið sanna stolt fólst í því að geta fætt, klætt og búið þak yfir höfuð. Gjalda keisaranum sitt og Guði sitt. Skulda engum neitt ef hægt var.

Samfélagið í dag. Steinsteypa, skyndibiti, hraði, óþolinmæði og ótti.

Fyrirmyndirnar frekar óraunverulegar og þokukenndar

Samhengið á milli þess að eignast og framkvæma annað. Mér finnst að í stað lyktarinnar af soðningu og sunnudagslæri sé fnykur græðginnar við völd. Á öllu skal græða. Allt hafið upp í dow Jones vísitölu og Ftse eða hvað það heitir. Peningar komnir í almættis stað.

Ekki tími til að kíkja í kaffi, hvað þá taka í spil. Allt spari orðið hversdags. Alltaf þarf að gera meira og meira til að gera dagamuninn.

Ég er ekki hissa á því að fólk sé þreytt og teygt á taugum.

Ég er oft spurður hvers vegna ég fór að gerast sjómaður aftur, eftir mörg ár í landi.

Einmitt þessi hugleiðing segir allt um það. Með því móti nýt ég þess betur sem samfélagið býður upp á. Fjarlægðin á sjónum gefur mér tóm til að hugsa og halda áttum. Litlu hlutirnir fá lengra verðgildi.

Svona er nú það. Lífið er jafndásamlegt nú sem fyrr. Spurningin er bara sú, hvernig við hvert og eitt verjum því.

Blogga meira á morgun.

 

 

 

 


Haldið til hafs á ný

TÝRmynd_5Þá er inniverunni senn að ljúka. Undarlegt að hafa komið í land í hinni bláu borg friðarins, og halda út frá borg óttans og spennunnar sem hefur nú grænrauðan blæ yfir sér. Enn lýsir Æ LOV JÚ ljósið örlagaríka upp himinhvolfið.

Ég skutlaði Yoko út í Viðey í fyrra sem Kafteinn á EldinguII, þegar hún með prik í hönd helgaði staðinn fyrir Æ LOV JÚið, við undirsöng barnsradda að viðstaddri elítunni, sem var með andköf af hrifningunni yfir gömlu Yoku, sem vildi ekki ferðast með lýðnum í sama skipi. Það sárnaði mörgum af hinum útvöldu. Óborganlegt var þegar tilvonandi fyrrverandi borgarstjóri ávarpaði lýðinn í eynni, þá Yoka hafði gengið eins og indíanakerling hringinn um véið með lurkinn í hendinni. Upphaf ávarpsins var svona: " Dear mister Yoko Ono, ladyes and gentlemen".

Mikið sé ég eftir Villa, það eru bara stórmenni sem geta leyft sér að segja mister Yóka.

Annars er mér slétt sama hvernig þetta skipast þarna í ráðhúsinu. Græðgin og hungrið eftir völdum og sleifartaki við kjötkatlana gengur þvert á flokka og flokksbrot.

Drottinn sér um sína það er víst og ég held að almættinu sé líka slétt sama hver situr í stærsta herberginu við Tjörnina,

Bráðum 101 mánaðar edrumennska hefur kennt mér það, að það er hinn innri auður sem mestu skiptir.  Það að hafa nóg að bíta og brenna, þak yfir höfuðið, góða fjölskyldu og vini. Trúa að hið góða hafi völd og treysta Guði, gerir hasarinn í ráðhúsinu að hismi.

Allavega blogga ekkert næstu 16 dagana eða svo.

Bestu kveðjur á meðan.


Gleraugu fuku á haf út. Kominn í land, friðurinn úti.

Jæja þá er enn einn túrinn á enda. Ég verð að segja að stundum langar mann barasta beint út á sjó aftur, þegar fólki í samfélaginu er svona mikið niðri fyrir. Það er svo ríkt í mörgu fólki að ætlast til þess að aðrir taki afstöðu í öllum málum sem það sjálft hefur tekið. Því miður gerist það oftar en ekki í tilfinningalegu uppnámi og hvatvísi. Þá  er ekki von á góðu.

Við erum svo viljug að dæma fólk og spara ekki stóru orðin þar til.

Hins vegar er það umhugsunarefni að það er eins og stór partur af þjóðarsálinni sé búin að samþykkja græðgi sumra en ekki annara. Baugsmálið og fjölmiðlaumræðan í því samhengi er dæmi um það. Endalaust er verið að draga í dilka. Íhaldsgræðgin virðist vera verri en samfylkingargræðgin, eða baugsgræðgin, svo maður tali ekki um framsóknargræðgina.

Mér finnst þetta samfélag allt vera að farast úr þessari sömu græðgi. Á meðan hvert mannsbarn hendir yfir 80 kílóum af mat á hverju ári, í öllum vellystingunum, kaupskipin hafa ekki undan að flytja inn glingrið og óþarfa draslið sem fólk verður að kaupa , vegna þess að það er svo ódýrt að það er ekki hægt að sleppa því. Skranbúðirnar blómstra sem aldrei fyrr.

Á meðan verið er að reyna að fara í útrás með þekkingu okkar á orkunýtingu, hvar valist hefur til starfans maður eins og Bjarni Ármannsson sem er fagmaður í viðskiptum og hefur sannað það svo ekki verður um villst að hann veit hvað hann syngur, ekki skildi hann við Glitni í rústunum, öðru nær, þá heyrist ekki stuna eða hósti þegar lækkun dollars um næstum helming skilar sér ekki í verði út úr skransölunum, sama hvaða nafni þær nefnast.

Kaupréttarákvæðin í KB banka, er fólk búið að gleyma því?  Var það ekki fyrrverandi forsætisráðherra sem tók út sína inneign í mótmælaskyni þá? Nei það þóknaðist ekki lýðnum, vegna þess að það voru íhaldsmótmæli. Þá þögðu sleggjudómararnir, þeir sömu og verja einn auðrhinginn út í eitt, en fara á límingunum þegar næsti auðhringurinn fer að græða.

Þetta er náttúrlega bara fyndið.

Er ekki öfundin stór þáttur í þessu öllu?

Bankarnir hafa verið að standa sig , fullt af öðrum fyrirtækjum blómstrar, undir stjórn dugnaðarforka og fagmanna. Er einhver sem gleðst yfir því? Verð ekki mikið var við það.

Mér verður oft hugsað til þess, þegar ég er á sjónum, og nýt þeirra forréttinda að vera tengdur við máttarvöldin og náttúruna, í þessari nánd við sköpunarverkið, að allt of margir fara á mis við upplifanir sem ekki verða metnar til fjár. Vitanlega þarf fólk að hafa á milli handa sinna fjármuni til að komast af og lifa og njóta. En þarf það að vera í þessari gegndarlausu neysluhyggju, vanþakklæti og neikvæðni.

Nákvæmlega það varð til þess að ég sneri baki við mínum störfum í landi. Mér finnst gott að komast frá hringiðunni og út á sjó þar sem ég tek eina vakt í einu, án þessara þrúgandi krafna samfélagsins um skoðanir á öllum skrambanum, síbylju og neysluhyggju.

Vitanlega er alltaf gott að koma heim, en ég verð meðvitað að reyna að halda mig frá því að sogast inn í þetta hugarfar, að þurfa að dæma allt og alla, eftir misjöfnum og mismatreiddum forsendum, það lék mig illa á sínum tíma. Lífið er ekki bara svart og hvítt.

Þess vegna finnst mér svo gaman að lesa bloggfærslur frá fólki sem er að benda okkur á það broslega og skemmtilega í tilverunni, nefni engin nöfn hérna, en vil þakka slíkum bloggurum fyrir að vera til, slíkt fólk er mér bráðnauðsynlegt.

Allavega hlakka ég til þegar þetta REI og Geysir green og hvað þetta alltsaman heitir er horfið út úr umræðunni. þá er allavega skemmtilegra að koma í land.

Lenti í því í einni vindhviðunni í morgun úti á ytri höfn að gleraugun mín fuku af mér. Já ég sagði gleraugun fuku af ásjónu stýrimannsins sem var bakborðsmegin að athuga festingar á "fendurum". Ein hviðan tók þau og þau svifu lárétt yfir þvert framskipið til stjórnborða, og þá tók við lóðrétt ferðalag ofan í hafdjúpin bláu. Vonandi að einhver gáfuleg keila geti notað þau þarna niðri. Allavega er ég einum gleraugunum (náttúrulega nýjustu og dýrustu) fátækari. Samt fyndið atvik. Smile

Þá er ég búinn að stimpla mig inn í nokkura daga inniveru. Eftir helgina er það sjórinn á ný. Cool


Umræða eins og rótlaust þangið

Norm%20HarpEr hættur að verða hissa á svona framsetningu. Þessi umræða er löngu komin langt út á tún. Hef fylgst með þessari umræðu lengi. Er í þeirri skemmtilegu aðstöðu að vera bæði hvalveiðimaður, og var til skammst tíma líka hvalaskoðunarmaður, til margra ára. Það að halda því fram, að ekki sé hægt að skoða og veiða, er eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Þetta getur vel farið saman, spurningin er að skipuleggja hlutina og veiða ekki hrefnu á hvalaskoðunarsvæðum.

Veiðar á langreyðum og sandreyðum hafa ávalt farið fram úti á djúpunum. Þar eru engir árekstrar við hvalaskoðunarfley, enda á annað hundrað sjómílur sem skilja að svæðin.

En það alvarlega í þessu öllu saman er, á meðan umræðan um verndun hvala er föst í tilfinningafjötrunum, þá eru hinar raunverulegu ógnir við lífríki hafsins ekki ræddar. Hef verið undrandi á talsmönnum hvalaskoðunar undanfarið, sem halda því fram að veiðar á þessum örfáu hrefnum, séu ástæða þess að erfitt hefur verið að nálgast dýrin í sumar. Í engu er vikið að ætisskorti í hafinu. Það er staðreynd að hungrað dýr er ekki vænlegt til þess að nálgast það. Á það við öll dýr, þarf ekki hvali til.

Staðreyndin er sú að afhroð hefur verið í afkomu sjófugla við landið um skeið. Er um að kenna ætisleysi. Í Vestmannaeyjum er staðan alvarleg og varp lunda hefur misfarist. Svartfuglsvarp hefur sömuleiðis misfarist á mörgum svæðum, því miður ekki bara á þessu ári.

Ekki hef ég orðið var við umræðu friðunarfólks um þá alvarlegu stöðu sem uppi er í þessum grunni fæðukeðju hafsins. Veiðar á sandsíli eru stundaðar í miklum mæli hér sunnar í hafinu. Má nefna þar til sögunnar dani, breta, íra , norðmenn og fleiri sem veiða sandsíli í hundruða þúsunda tonna vís. Hvalirnir eru dýr sem ferðast um þessi hafsvæði og þetta kemur niður á þeim, það er næsta víst.

Ljósáta er veidd, og verið er að smíða risaryksugur til þess að sjúga hana upp. Er talað um það?

Nei að sjálfsögðu ekki. Öll þessi umræða er bara á tilfinningalegum nótum. Á meðan tilfinningarnar (og gróðavon sumra) bera umræðuna ofurliði þá eru þessar staðreyndir ekki ræddar.

Í sama stað hef ég oft verið hugsi, þegar verið er að tala um landfyllingar hérna í borginni. Hvernig tengist það umræðu um hvali? kann einhver að spyrja.  Jú, verið er að dæla upp sandi, búið að gera það áratugum saman, á fiskislóðum hér í Faxaflóa, á Akrunesingasviði til dæmis, og eins utar og sunnar í flóanum. Búið er að dæla gífurlegu magni upp á þessu viðkvæma svæði. Hefur farið fram rannsókn á þeim skaða sem þetta kann að valda? Eru þetta hryngingarstöðvar fyrir sandsíli? Er fólki alveg sama um það, að valda mögulega ógnarskaða á lífríki Faxaflóa, svo að hægt sé að hlaða niður fleiri mannvirkjum hér við ströndina á landfyllingum þar sem efnið í landfyllingarnar er svo dýru verði keypt?

Sandsíli er gríðarlega mikilvægt fyrir fulga, fiska og hvali og viðkoma þess hlýtur að koma niður á fæðuvali þeirra dýra. T.d. hvað étur hrefnan sem hefur legið í sandsílatorfunum í Faxaflóa á sumrin, þegar brestur er í sandsílastofninum?

Sínum augum lítur hver á silfrið. Þannig er það. Drifkraftur sumra í þessari umræðu er því miður ekki af einhverslags kærleik til umhverfisins, heldur einfaldlega gróðavonin. Það munar um þúsundir tonna af hvalkjöti á markaðnum. Í bland við tilfinningar er gróðravonin líka í umræðunni. Það er ekki góð blanda.

Langreyður3Vonandi verður hægt að koma þessari umræðu í nýjan farveg, og í samhengi við það sem er að gerast. Umræða um náttúruvernd er ekki bundin við hálendið, hvali og stóriðju.

Þeim til huggunar sem eru hræddir um að hvalir séu að deyja út, þá get ég sagt þeim að sjaldan hef ég séð eins mikið af hval úti á djúpslóð, en í sumar.

Vonandi eigum við eftir að sjá sjálfbærar hvalveiðar við hlið dafnandi  hvalaskoðunar hér á landi. Allir ættu að geta komist af með sitt ef rétt er á málum haldið.


mbl.is Bandarísk blaðakona gagnrýnir hvalveiðistefnu Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg stund.

Var í sálumessunni í minningu Pavarottis. Fögur stund og þeim til sóma sem að henni stóðu og komu þar fram.

Basilika Krists konungs í Landakoti er gríðarlega fallegt hús og hefur einn þann besta hljómburð sem gerist á landinu.

Sem sóknarbarn í kaþólska söfnuðinum naut ég þess sérstaklega að hlýða á þessa fögru tónlist í kirkjunni okkar.

Þakka fyrir mig.


mbl.is Sálumessa fyrir Pavarotti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Einar Örn Einarsson

Höfundur

Einar Örn Einarsson
Einar Örn Einarsson

Starfa meira á sjó en á landi. Skagamaður brottfluttur, en alltaf Skagamaður samt  Skipstjórnarmaður og stoltur af því, tónlistarmaður líka.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • 13238955 10209925009990683 1077508870570553214 n
  • 11147146 10155663157855151 374052219909610049 n
  • 11147146 10155663157855151 374052219909610049 n
  • IMG_3755
  • Rainbow in moonlight

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 51560

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband