Færsluflokkur: Bloggar
25.9.2008 | 16:09
Kominn í heim í undraland á ný!
Þá er maður búinn að sigla hjá Sambó. Reyndur kafteinn á Arnarfellinu, en hann ásamt 2 öðrum um borð voru á Dísarfellinu þegar það sökk, sem setur mark sitt á menn og dýpkar reynslu þeirra. Það segir mikið um karakter slíkra manna að enn eru þeir á sjó og skila sínu með sóma.
Gaman að kynnast nýju fólki, nýju skipi og fyrirtæki. Takk fyrir mig strákar, topp áhöfn þarna.
Menn fylgdust með gengisrússibananum úr fjarska í ferðinni. Einn Úkraínumaður þarna um borð var að spyrja míg út í þetta, og hann sagði " og þið segið okkur vera frumstæða og með undarlega stjórnarhætti".....ég svaraði engu.
Nóg er að hugsa á þessu heimili. Pong kemur á laugardagskvöld. Mikið að gerast.
Alavega stimpla mig inn hér með kæru bloggvinir.
Bloggar | Breytt 26.9.2008 kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.9.2008 | 19:05
Kveðja frá Rotterdam
Kveðja frá Rotterdam.
Gott að sigla hér, fínn mannskapur og greinilega góður andi hjá Sambó. Gott að vinna í þessari brú. Næstum nýtt skip, samt töluvert öðruvísi en dönsku skipin hjá Eimó. Þetta skip er þýzkt, Sietas smíði. Góður andi í skipinu, en ég upplifi skip afar misjafnlega, er ekki einn um það að finna fyrir misjöfnum áhrifum þegar um borð er komið.
Förum í nótt til Cuxhaven og þaðan til Svíþjóðar, svo Danaveldi og þá Færeyjar á heimleið.
Er á sjómannaheimilinu í Hejplaat, á milli hafnanna þar sem Eimó skipin leggjast í Valhaven hjá Uniport og Beatrixhaven þar sem Sambó leggjast, kisi gamli hérna á sjómannaheimilinu kannast við mig og sefur í kjöltu minni á meðan ég kíki á póst og les fréttir að heiman. Var að spjalla við Pong á MSN en það styttist í að hann fari að koma heim.
Fer að hjóla aftur um borð, Jónas kokkur lánaði mér 100 þús króna hjólið sitt.
Kveðja á ykkur heima.
Einar Örn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.9.2008 | 00:39
Já hvað haldið þið, er ég ekki barasta farinn á sjóinn, Hissa?? Er lánaður. Sambandið? nei. Samskip heitir það.
Jæja ekki stoppa ég lengi í landi, frekar en fyrri daginn.
Er lánaður um borð í Arnarfell skip Samskipa í næstu ferð skipsins. Kem aftur innan 2 vikna. Fínt að bæta við reynslubankann, það skilar sér strax í stafið hjá gæzlunni.
Gaman að prófa að sigla hjá Sambó gamla Sietas skipin þýzku eru annáluð fyrir að vera góð sjóskip. Heldur er minna í lagt í plássið fyrir skipverja ef maður miðar við dönsku mublurnar eins og Örskov skipin. Held að ég geti alveg staðið undir nafni að vera sjómaður, allavega er ég mun meira á sjó en landi.
Kann vel við það, menn missa af miklu að fara aldrei á sjóinn.
Fögru fyrirheitin um blogg næstu daga fuku sinn veg, en sem betur fer koma dagar og koma ráð.
Er kominn með teljara á síðuna, Pong kemur þann 27. sept. Hef þurft að nota tímann vel að undirbúa komu hans, hann fer strax í Íslenskutíma blessaður þann 29. en það er afmælisdagurinn hans, þá verður hann 32ja ára.
Kveðja á ykkur mín kæru. Knús, kossar, bros eða klapp á öxl. Þið takið það sem þið viljið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Þá er einn túrinn enn að baki. Vorum töluvert á djúpmiðum. Jón bryti brilleraði og við fengum siginn fisk að borða mmmmmm, ekki allir sem fögnuðu jafn mikið og ég , Pálmi og Týri, en siginn fiskur er hnossgæti. Ætti að setja í landslög að í hverri ferð skipa á íslenskri skipaskrá skuli bera fram siginn, skötu, saltað hrossaket og svið. Alltént er víst að skyndifóður að hætti bandaríkjahrepps er ekki okkur fyrrtöldum að skapi.
Greinilegt að haustið er komið. Litlir farfuglar höfðu greinilega borist af leið sinni yfir hafið, þegar fyrsta haustlægðin hægði á sér og blés þeim vindinn í fang, reyndu þeir að leita hælis um borð. Einn agnarsmár var tekinn í gjörgæslu, en líkaði ekki vistin meðal mannanna og dó í búri sem var búið að útbúa fyrir hann. Annar töluvert séðari komst inn í þyrluskýlið og hélt sig þar í felum, síðan þegar við vorum í höfn í Þórshöfn í Færeyjum var stóra skýlishurðin opnuð og út flaug hinn séði fugl. Eina nóttina reyndu einhverjir að komast inn um brúargluggana, en án árangurs. Svona er náttúran óvægin og miskunnarlaus þegar því er að skipta.
Menn fóru að þrefa um nöfn þessara fugla. Ég var viss um eitt að þetta voru tittlingar, en hvaða tittlingar, var ekki alveg víst með. Undarlegt að vera að þrasa um tittlinga úti á sjó.
Niðurstaðan var Auðnutittlingur, allavega sá sem dó í gjörgæslunni, sumir vilja meina að sá séði sem fluttist til Færeyja hafi verið þúfutillingur. Ég telst til leikmanna þegar kemur að tittlingum svo að ég barasta læt það einu gilda hvað þeir heita.
En svona getur það gengið fyrir sig á sjó.
Allavega er ég kominn heim, sestur við gluggann góða og mun örugglega blogga eitthvað á næstunni.
Bros á ykkur bloggvinir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.8.2008 | 02:06
Fríið búið, haldið til hafs á ný. Er kjaftbloggstopp eftir allt borgarstjórnardæmið.
Þá er það sjórinn enn og aftur.
Mun ekki blogga mikið, en get gefið einhver komment frá tengingunni þar. Ekki það að ég sé það mikill bloggmeistari.
Er eiginlega kjaftbloggstopp eftir allt borgarstjórnardæmið, ekki vegna þess að borgarfulltrúar eru að breyta sínu samstarfi innbyrðis, sem þeir mega samkvæmt lögum, heldur á þessu tilfinningalega uppnámi í fjölmiðlum og þessu endalausa sérplægna og eigingjarna bloggi í sambandi við þetta. Fólk er að missa sig í gremju og stundum frekju, vegna þess að þeirra fólk er ekki við völdin. Þetta er gósentíð fyrir alkana, gremjan aðaleldsneyti alkoholismans nærist og dafnar sem aldrei fyrr.
Finnst reyndar sumir þarna ekki detta úr háum söðlum eins og Björk VIlhelms sem fór í fýlu og skipti um flokk vegna þess að hana þyrsti í meiri völd og gat ekki unað lýðræði eigins flokks, og svo stóra fórnarlambið Margrét Sverrisdóttir.... segi ekki meir. Nú er bara búið að breyta um fólk á fýluvaktinni.
Er að reyna að segja að það er ekkert eitt rétt eða rangt í þessu, Við kjósum á 4. ára fresti og það veitir þessu fólki umboð sem gildir þann tíma. Hér eru engin lög brotin hvað sem fólki "finnst". Vitanlega höfum við öll rétt á að hafa skoðanir og viðra þær, en reiði og gremja eru ekki skoðanir, heldur tilfiningar.
Hvernig væri að koma með eitthvað uppbyggjandi í staðinn? Ég segi fyrir mig ég kaus á sínum tíma og mun kjósa næst ef ég fæ að lifa. Er sem betur fer pólitíkst munaðarlaus í dag, en pólitík var ígildi trúarbragða hjá mér lengi vel.
Himinn og jörð eru ekki að farast, það er ljóst. Borgarbatterýið mun starfa eftir sem áður. Ég vil bara spyrja að leikslokum í þessu. Allavega get ég ekki hugsað mér stjórnsýslu sem stjórnast af gremju og persónum sem eru vælandi fórnarlömb. SKil ekki hvað þessi væll er að ganga í kjósendur. Og hvernig á maður að svara skoðanakönnun um meirihluta sem er ekki einu sinni tekinn við? Er ekki allt í lagi með þetta system? Á maður að taka þátt í uppnáminu? Nei takk, ég hef ekki efni á því. Ég met mína andlegu heilsu meira en það. 15 borgarfulltrúar eru á launum við að stjórna borginni ALLIR!!! það stendur ekkert í lögum um meiri og minnihluta.
Pólitík er pólitík, hefur allltaf verið og mun verða áfram, og hún snýst um völd ekkert annað.
Oghananú.
Kveðja á ykkur. Ég sef rólegur hver sem meirihlutinn er í borginni. Það verður samt flóð og fjara, dagur , kvöld , nótt og síðast en ekki síst dagrenning sem felur í sér nýja von .
Bið kæra bloggvini ekki að taka þetta persónulega, en mig langaði bara að koma þessu út í loftið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.8.2008 | 15:12
Hvað veldur? Þráir fólk að viðhalda hörmungunum og hatrinu?
Ef þetta er ekki stórglæpur þá veit ég ekki hvað.
Að svona lagað skuli gerast mitt í blómlegum samfélögum, að fólk geti safnað saman börnum til að innræta þau í þessa veru, finnst mér umhugsunarefni.
Er það virkilega svo að fólk fái sig til þess að afhenda börn sín í slíkan heilaþvott. Er þessi þrá eftir 3. ríkinu svona sterk að fólk fórnar æsku og sakleysi barna sinna til að helga málsstaðinn?
Þessi frétt allavega kemur róti á huga minn.
Líkt og ég var að tala um í færslu minni um gleðigönguna, þá held ég að það megi aldrei gleymast að minna fólk á fortíðina, um hvaðan við komum og hvaða leið var farin til þess.
Það þarf að staldra við í neyslupartýinu og taka veruleikatékk öðru hverju.
Er þetta ekki annars misnotkun á börnum, eða er það bara bundið við eitthvað kynferðislegt?
Hitlersæskubúðir rannsakaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Gleðigangan í dag. Víst er að mörg voru sporin þar.
Lengi vel vakti þessi hátíð með mér blendnar tilfinningar. Ég gat ekki glaðst heilu hjarta. Í stað þess var ég hryggur vegna þeirra sem vörðuðu veginn. Gengu hin fyrstu spor svo úr varð slóði sem stækkaði og varð að hinum breiða vegi sem genginn er í dag.
Eitt get ég sagt ykkur, þau spor voru ekki öll gleðispor. Þeir skipta ekki tugun heldur telja í stærri einingum sem ég hef séð á eftir, þar sem gangan varð þeim um megn. Ég hef starfað í "periodum" á ólíkum tímum í stjórn og önnur verkefni, í öðrum tíðaranda, öðru samfélagi, má segja, sem betur fer. Fólk sem starfar mikið í slíkum aðstæðum er fljótt að tæma af tankinum, sérstaklega þegar persónuleikinn krefst sinnar athygli og viðurkenningar, sem fæst ekki eðlilega, þegar stór hluti lífs manns er öðrum hulinn, er pakkaður inn í skömm og neikvæðar hugsanir. Þar hafa brotnað og bognað hinar styrkustu stoðir.
Deyfingin við sársaukanum varð oft í formi þess að ganga aðra göngu, á vegi áfengis og umbreytandi efna, áfengisþokan og fíknirnar, gerðu illt verra og sumir gengu öngstrætið á enda og kusu að enda líf sitt, aðrir keyrðu líkama sinn í sjúkdóma, ætla ekki að telja allt það upp hér.
Sumir beindu sinni göngu inn um gleðinnar dyrnar, en kunnu sér ekki hóf í hinum gullnu veigum og enduðu utan við , urðu á endanum einangraðir og óttaslegnir.
Allt vegna hinna þungu dóma , sérstaklega þeirra sem gáfu sig út fyrir að vera í umboði kærleikans og manngæskunnar. Það gat verið sárt að leita hjálpar og vera vísað á dyr með formælingum og svívirðu. Slík sár svíða lengi.
Ástæða þess að ég nefni þetta hér, er sú að ég vil minnast þeirra sem hér um ræðir. Þakka þeirra göngur, án þeirra væri gleðin minni í dag. Í hugskoti mínu renna myndir þeirra allra. Ég minnist þeirra með lotningu og óendanlegu þakklæti þar sem þau vonandi ganga með okkur í öðrum víddum, þar sem enginn sársauki er lengur, aðeins birtan og gleðin ásamt sátt við Guð og menn.
Ég er líka þakklátur þeim sem stóðu sig svo vel í dag á öllum póstum í göngunni í dag, hvernig svo sem þeirra aðkoma var að því.
Síðast en ekki síst er ég þakklátur öllum þeim sem koma , senda kveðjur og fallegar hugsanir. Með því eruð þið líka að heiðra minningu þeirra sem ég hef hugsað til í þessari færslu.
Ég er sáttur í dag, þakklátur fyrir að hafa bjargast úr brimgarðinum mikla. Sumir þurfa sinn tíma að jafna sig á slíku volki. Í dag þarf ég ekki þá athylgi sem ég krafðis, þarf ekki þessa stóru viðurkenningu. Ég þakka það starfi okkar allra sem höfum á ólíkan hátt dregið þennan vagn, eins 12 spor leynifélagsins góða sem gerðu mér kleyft að sættast við lífið og vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu. Allt það fólk sem ég hef átt samfélag við í lífi og starfi um langa hríð, þakka ykkur fyrir líka. Met ég það mikils.
Er glaður í dag og það er full ástæða til. Tók þátt í göngunni sem bílstjóri fyrir Thailenska vagninn, sem er kannski táknrænt fyrir líf mitt í dag, en Pong kemur eftir nákvæmlega 7 vikur og er hann orðinn óþreyjufullur, held að hann sé búinn að pakka niður hehehe.
Knús á ykkur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Þar sem ég kom heim til mín eftir sundlaugina og göngu um vesturbæinn, hvar ég í mig teygaði angan runna og rósa, ásamt ilmi af nýslegnu grasi, ásteitin kisa gerði sér dælt við mig, og áttum við atlotsstund, farið var að húma og yfir mér andi innblásinn af borgarskáldinu Tómasi, var að hugsa að brátt myndi borgin fara að sofa við opinn glugga og allt í þeim dúrnum, kveikti á sjónvarpinu og SJÁ:
Í sjónvarpinu var raunverukeikaþáttur sem innihélt grenjandi fitubollur frá Amríkunni, háorgandi slökkviliðsmaður ásamt fleirum, vegna þess að þau voru að keppa í horfellingu (megrun) og áttu miserfitt með að hætta að éta, og hvað gerðist?
Ég fékk menningarsjokk. Andblærinn góði fauk úr vitum mér og út um svalahurðina, til sinna líka sem sveima yfir vesturbænum.
Hvað er að gerast í þessum heimi? Er þetta það sem S1 telur vera afþreyingu á föstudagskvöldi, er þetta það eina sem var hægt að draga upp úr sjónvarpssorphaugnum?
Ég kveiki á kerti og opna fyrir gömlu gufuna, sest við gluggann minn , við opna hurð, og leita eftir andblænum á ný.
Má ég þá frekar biðja um ástleitna kisu og töðuilm, en þennan sjónvarpsskarna frá Bandaríkjahreppi.
Er þakklátur fyrir slökkva og kveikja takkann . Það er nú það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.8.2008 | 12:19
Falleg saga.
Liggur við að manni hlýni um hjartaræturnar að lesa þetta.
Segi eins og gamla fólkið sagði oft á tíðum. " Blessuð skepnan"
Folald tekið í fóstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2008 | 18:32
Frónið farsældarinnar undir fótum á ný. Heima.
Fagur var Faxaflóinn í gærkvöld.
Datt í hug ljóðlínur Þorsteins Þorskabíts þegar ég leit heim á Akranes og þaðan upp í Borgarfjörðinn: " Girt með fríðum fjallakrans, frægsta byggðin móðurlands. Borgarfjarðarhérað hlýtt, heillaríkt og fegurð skrýtt". Flóinn fullur af lífi, hnúfubakar og hrefnur. Suður af Vestmannaeyjum voru Sandreyðar og búrhval sá ég líka pústa lengi, greinilega eftir langt djúpkaf á svipuðum slóðum.
Heim. Að koma heim. Alltaf sérstakt, alltaf sérstök tilfinning. Góðir túrar , slæmir túrar , la la túrar, alveg sama hvernig á það er litið, þá er alltaf gott að koma heim. Við sjómenn finnum svo vel hversu mikils virði það er að eiga sér þennan stað, þetta athvarf sem er heimilið okkar sá staður sem við komum heim til. Manni hættir til að gleyma því stundum í hversdeginum, hversu mikilvægt það er að eiga þennan samastað og njóta hans. Þetta er ekki spurning um marmara, demata , perlur né skínandi gull, heldur er það að vera innan um sitt persónulega, setjast í sinn stól og leggjast í sitt rúm.
Það að koma heim til Íslands eitt og sér er einnig góð tilfinning. Hér er samankomið það sem stendur manni nærri eins og gefur að skilja, menningin og sagan. Fyrst að koma heim og svo að fara heim til sín.
En nóg um svona pælingar, ætlast ekki til að þið skiljið þetta, en svona grautast þetta í mínum haus.
Ljúf og góð sjóferð að baki, á góðu skipi, með góðri áhöfn, og sérdeilis ánægjulegt að sigla með Engilbert skipstjóra. Ég verð líka að geta hans Rabba ( Rafn) yfirstýrimanns , en við skiptumst á að stjórna skipinu á vöktum, og á vaktaskiptum þurfa menn að skilja hvorn annan, bæði hvað varðar siglingu skipsins, svo og lestun og losun, en yfirstýrimaður er aðalmaðurinn í lestun og losun, og stjórnar því bingói. Því er nauðsynlegt að menn vinni vel saman. Gott að vinna með Rabba.
Vinnusvæði okkar skipstjórnarmanna í brúnni, héðan er skipinu stjórnað á siglingu.
Engin smásmíði þessi brú, í þessum fermetrum væri hægt að innrétta glæsilega íbúð, nóg er plássið. Gott að vinna í svona aðstöðu.
Það þarf ekki að vera að garga skipanir hægri og vinstri um borð í þessu skipi, hér kunna menn sitt fag og þeim er full treystandi fyrir því að klára sitt, svo skipið skili sínu. En um það snýst farmennskan. Að skila skipi, fólki og farmi heilu í höfn á réttum tíma, eins þarf að sjá til þess að allt sé í lagi og öryggis sé gætt í hvívetna.
Í kaffimessanum á A dekkinu , en aðal borðsalurinn er á C dekki. Frá v. simbi bryti, Gunni Hilmars og Jóhannes bátsmaður.
Hérna er svo undirritaður í tölvunni í bakborðsbrúarvæng, unnið við lestun og losun í Færeyjum. Þarna sjáum við yfir allt dæmið og getum bókað gámana og staðsetningu jafnóðum.
Og kaffið . Því er hesthúsað heldur betur þarna. Keypti þessa könnu í slússunni í Bruhnsbuttel á leið inn í Kielarskurðinn. Afgreiðslumaðurinn þar var sá óþjónustulundaðisti sem ég hefi fyrirhitt, hef þó upplifað ýmislegt. En kannan er góð.
Vil þakka áhöfn Goðafoss fyrir túrinn, ekki fyrsta skipti sem ég sigli hér og vonandi ekki það síðasta. Þið eruð flottastir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Um bloggið
Einar Örn Einarsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- baldurkr
- benna
- bumba
- jaxlinn
- elisabeta
- jaherna
- vinursolons
- frikkih
- garun
- gtg
- gretarmar
- gudni-is
- gudbjornj
- gutti
- skipperinn
- gurrihar
- hallibjarna
- vulkan
- heidathord
- hildurhelgas
- snjolfur
- jakob
- jenfo
- johanneliasson
- jonaa
- jarnar
- prakkarinn
- nonniblogg
- kikka
- lillagud
- cornette
- magnusthor
- maggadora
- solir
- oliskula
- olofdebont
- dj-storhofdi
- percival
- ragnar73
- seinars
- fusinn
- siggiholmar
- smm
- villiov
- toti-ripper
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 51491
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar