Snúrublogg edrú í 21 ár.

Tíminn líður trúðu mér. Það ða hafa fengið að vera alsgáður og edrú í 21 ár er ekki sjalfgefið.

Ég er undur þakklátur og næstum meyr þegar ég hugsa til allra þeirra sem heyja baráttu við Bakkus konung og alla hans fylgifiska. Allt of margir verða að lúta í lægra haldi fyrir hinum miskunnarlausa sjúkdómi og harða húsbónda sem Bakkus er.

Að eiga fortíð í yfir 2 áratugi og þar af megnið af tímanum frjáls undan okinu þunga, sem ég þakka 12 sporum og því góða fólki sem hefur vísað mér veginn.

Ég er í grunninn eifaldur, og þarf að einfalda hlutina en ekki flækja þá.

TIl þess hef ég minn æðri mátt , trúnaðarmenn og félaga og það að geta gefið áfram þessa lausn.

Takk fyrir mig Guð eins og ég skil þig, mitt góða fólk og prógrammið góða.

Það er til lausn og ég vona svo sannarlega að sem flestir verði þeirrar gæfu njótandi að leita hennar og þiggja.

Takk takk takk :)


Snúrublogg 17 ár edrú.

13238955_10209925009990683_1077508870570553214_n

Enn eitt árið rennur hann upp sá dagurinn sem ég fagna ári í viðbót, án þess að þurfa að leita eftir lausn inn í áfengisþokuna eða annarra boðbreytandi efna.

Er um borð í skipi mínu í Aberdeen.

Þakklætið er mér ofarlega í huga.  Að þurfa ekki að kvíða næsta degi, að geta verið frjáls undan öllum þessum ógeðslegu tilfinningum sem stjórnuðu minni líðan og annara í kring um mig, er svo ótrúlega magnað.

Vitanlega færir lífið manni verkefni eftir sem áður. Misjafnir dagar mæta manni. En að takast á við þau verkefni með vopnum 12 sporanna og ekki minnst að þurfa ekki að dveljast í angist og kvíða löngum stundum, er ekki sjálfsagt. Maður verður að viðhalda því sjálfur. Mæta öðrum ölkum og velja sér viðfangsefni og aðstæður sem eru manni hollar, þegar það er hægt.

Áður hrundi heimurinn ef ég mistti úr eitt kvöld á galeiðunni eða „úti á lífinu“ eins og það kallast. En nú hef ég verið fjarverandi í 17 ár og sakna einskis.

Það að vera edrú hefur ekkert með gáfur, greind, dugnað eða hetjuskap að gera. Heldur er viljinn allt sem þarf. Löngunin til að hætta að drekka. Fúslekinn að horfast í augu við eigið sjálf með kostum og göllum. Og að taka leiðsögn þeirra sem hafa gengið sömu leið.

Ég vil meina að sporið sem ég tók fyrir 17 árum hafi verið gæfuspor.

Ég hvet allar manneskjur sem hafa misst stjórn á lífinu og tekið á flótta inn í áfengisþokuna að leita að fúsleikanum í hjarta sínu og taka í útrétta hönd samtakanna sem bjóða upp á 12 sporin. Þau sporin eru leiðin til lífsins frá dauðanum. Flóknara er það ekki.

Ég hlakka til að takast á við þetta líf á lífsins forsendum.

 

Takk fyrir mig J

 

Einar Örn Einarsson


Snúrublogg. 16 ár án áfengis.

 

 

11147146_10155663157855151_374052219909610049_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  1. mai 2015

Óminnishegri heitir

sá er yfir öldrum þrumir.

Hann stelur geði guma.

Þess fugls fjöðrum

eg fjötraður vark

í garði Gunnlaðar.     (hávamál)

 

Þá er hann upp runninn dagurinn sem ég staldra við í auðmýkt og þakklæti fyrir ár til viðbótar laus við óminnishegran, sem í krafti Bakkusar lagði líf mitt , sálu og líkama undir sig.

Er svo óendanlega þakklátur fyrir svo margt.

  • Mátt samfélags sem ræktar lausn við ofurvaldi Bakkusar
  • Kærleika og hreinskilni góðs samferðarfólks
  • Fyrir góðan lífsförunaut sem deilir með mér lífi án áfengis.
  • Hinum æðri mætti fyrir að taka af mér byrðarnar.
  • Að vera frjáls gagnvart fólki , skoðunum annara og aðstæðum.

 

Án þessa væri líf mitt snautt. Þar að segja ef ég væri lífs, gruna að Bakkus hefði tekið líf mitt sem toll ef mér hefði ekki hlotnast sú náð að þiggja lausn sem felst í andlegri leið.

Það að eiga líf sem er svo ríkt að innihaldi , starf sem ég nýt til botns. Er ekki sjálfssagt.

Að eiga samskipti við fjölda fólks án átaka er ekki sjálfsagt heldur.

Er fullur auðmýktar og þakklæstis.

Blessuð sé minning þeirra mörgu sem máttu lúta í lægra haldi fyrir þessum vágesti.

Ef einhver er að berjast í dimmum dal, vonleysis, ótta og reiði í heljargreipum fíknar og neyslu. Þá langar mig að segja. Það er til lausn. Eina sem þarf er að bera sig eftir henni og margir til þess að leiða þig veginn sem felst í andlegu ferðalagi sem breytir nótt í nýtan dag.

 

Takk fyrir mig allt hið góða fólk sem stendur mér nærri og hefur fetað veginn samferða mér.


Snúrublogg, Fimmtán ár í frelsi.

Fimmtán ár í frelsi.

 

IMG_3755

Fallegur var morgunn hér í Pattaya hæðum í Thailandi.  Sólin skein í heiði og dagurinn í vændum. Þegar líða tók á morguninn fóru þung regnský að láta á sér bæra.  Þrumur í fjarska og nálguðust hver af annari. Sólin hvarf bak við sortann. Þrumurnar ágerðust og eldingum sló niður afar nærri, nokkrum sinnum náði ég vart að byrja að tekja upp í 1. Svo opnuðust gáttir himins og steypiregn. Nú rétt eftir hádegið hefur stytt upp og birtan færist yfir á ný. Framundan er síðdegið allt og svo kvöldið allt þar á eftir.

Í dag eru  15 ár síðan ég og Bakkus konungur skildum að skiptum. Veðurfar dagsins er eins og lýsing á lífi mínu.  Sem betur fer stytti upp. Hef verið hugsi um þetta líf mitt við þessa vörðu á þroskaleið minni. Vildi ég hafa gert þetta öðruvísi ? Svarið er Nei.

Það að hafa brotist í gegn um brimgarð breytir lífi manns og gildismati. Það að hafa haft dauðann svo nálægan og ógnandi nánast bíðandi við næstu horn og svo að komast  í skjólið. Það sem gerir þetta skjól svo sérstakt að maður verður að halda því við svo að það haldi vörnunum. Það varir aldrei lengra en sem nemur því sem maður leggur í að viðhalda því. Til þess þarf ég að viðhalda auðmýkt minni og eins að halda vitundarsambandi við hinn undursamlega mátt sem gefur okkur lífsorkuna, sami máttur og gefur lífríkinu og sköpunarerkinu öllu lífsneistann. Eins þarf ég að vera í föruneyti annarra í sömu sporum og gefa af mér og deila þeirri lausn sem okkur er gefin.

Það að vera fangi eigin hugsana, ótta við álit annara og lifandi hinum lamandi ótta, ásamt þráhyggjunni,  eru nokkrar af rótum sjúkdómsins  alcoholisma.  Eina sem slær á þetta ömurlega ástand er að "fá sér" til að gleyma, til að deyfa, til að komast í  gegn um þennan ömurleika. En það sem við gerum okkur ekki grein fyrir er sú staðreynd að lausnin "að fá sér " gerir hlutina enn verri. Sú vegferð er dauðans alvara og endar í einu af tvennu, geðveiki eða dauða.

Svo er það hin raunverulega lausn. Hún krefst þess eins að maður verður að vilja þiggja hana sjálfur.  Hún felst í því að gefa sig á vald þeirri staðreynd að við erum einn dropi í hafinu, sandkorn í eilífðinni. Sjálfshyggjan verður að hverfa. Við erum partur af heild og sú heild sem býður fram lausnina leiðir mann, ef maður þiggur, sporaleiðina. Þvílíkur léttir að finna að það er í raunninni allt í lagi. Dagarnir þurfa ekki að vera í endalausum bardaga og átökum. Það eina sem þarf er að slappa tökunum og horfast í augu við lífið á lífsins forsendum. Þetta er fjöregg sem okker er gefið og okkar að varðveita og gefa áfram.

Líf mitt tók algjörum stakkaskiptum. Í dag á ég líf sem ég þorði ekki einu sinni að láta mig dreyma um áður. Ég elska og er elskaður og er svo sannarlega blessaður. Ég get verið með fólki og get unnið með fólki átakalítið.  Yfirborðslegt líf og glansmyndir heilla mig ekki. Það að eiga ró í sálinni og frið í hjartanu er öllu öðru dýrmætara. Gildi hinna sönnu vina er gulls virði.

Þakklæti og auðmýkt er mér efst í huga. í dag. Það er mér hollt að vera hérna einn í dag. Pongsi minn er heima á Íslandi að vinna. En við erum alltaf saman þrátt fyrir að höf og álfur skilji að, eins og lífi okkar er háttað vegna vinnu og aðstæðna.  En í einverunni getur maður óáreitt skoðað sig og speglað. Fer svo á leynifélagsfundinn minn í heimadeildinni minni hér í Pattaya og tek á móti 15 ára peningnum. Tákn um að lausnin virkar.

Það er til lausn !

 

Örfáar þrumur heyrast í fjarska. Fuglasöngurinn hefur náð yfirhöndnni og sólargeislanrir speglast á flísunum á veröndinni. Það er stytt upp. Fallegur eftirmiðdagur í vændum sólarhringurinn rétt rúmlega hálfnaður. Fyrirheit um góða hluti. Lífið er yndislegt!

 

Takk fyrir mig.


Snúrublogg. 14 ár og frjáls.

Komið að einu bloggi. Snúrblogg.

Nú eru 14 ár síðan ég gafst upp fyrir Bakkusi konungi. Man þegar ég vaknaði upp á Suðurgötunni í Keflavík. Ranglaði niður stigann og inn í eldhús og allt í einu eins og í einni svipan gerðist það. Ég gafst upp. Gjaldþrot andlega og þrotinn líkamlega að kröftum, brunninn upp í starfi, búinn að drekka frá mér þáverandi samband. Ég hreinlega gat ekki meira.

Undanfarinn var búinn að vera langur og strangur. Flóknar aðstæður sem rekja má aftur til æskuáranna. Ekki skorti mig ást og umhyggju í uppvextinum. En örlögin gripu grimmilega í taumana. Svart og ljótt leyndarmál bættist í farteskið og það bættust fleiri slík á byrðina .

Ég var greindur , hraðlæs 4 ára. Settur í skóla ári á undan jafnöldrum. Hið óhjákvæmilega fylgdi. Einelti og einangrun á móti athygli og hæfileikum. Ég var ekki eins og hinir. En ég skyldi standa mig. Tróð ekki hefðbundnar slóðir. Var látinn gjalda þess. Þrátt fyrir annmarka mína, kvíða, felmtursraskanir, athyglisbrest og leyndarmálin. Þá náði ég að standa í fæturnar. Ég gat illa tjáð mig um hvað angraði mig hið innra. Var lagður inn á sjúkrahús í tvígang á unglingsárum og var rannsakaður í bak og fyrir eftir að hafa verið lagður inn með blóðþrýsting langt yfir hættumörkum. Sé það eftir á að það voru alvarleg taugaáföll. En athyglin barst ekki að því innra, skrokkurinn var rannsakaður í bak og fyrir. Hið andlega var ekki viðfangsefnið þar. Þá var samkynhneigð tabú og Stígamót ekki til. Orðið einelti var ekki heldur til.

Ekki ætla ég að fara að greina hvað varð til þess að ég varð alki. En flóttinn frá ömurleikanum, inn í algleymið og áfengisþokuna var mér kærkominn. Á það sameiginlegt með hinum ölkunum að hafa fetað rússíbanan allan. Upp í hvatvísi og hroka og niður í djúpa dali depurðar og vonleysis. Sjálfsmatið í molum og óttinn nánast eina tilfinningin sem maður tengdi almennilega við. Tilfinningar voru mér nánast ofviða, stjórnlausar æddu þær um æðarnar og ég vissi ekkert hvað þær í rauninni þýddu. Ég leitaði skjóls hjá eldra fólki. Fann þar til öryggis.

Setti stoltið í störf mín og unndi mér aldrei hvíldar. Allt snerist um að geta verðlaunað sig með áfengi. Alltaf bættist í hinn andlega farangur og oft á tíðum var ég í „blackout“ blá edrú.

Það að brenna upp er skelfileg tilfinning. Guð flögraði upp um rjáfrið í Keflavíkurkirkju, mitt í hátimbruðum helgidómnum. Það var ekki pláss fyrir okkur báða, hið útbelgda egó alkans og Guð. Reiðin, bölsýnin , gremjan, hrokinn, viðkvæmnin, sjálfsvorkunin og neikvæðnin nær undirtökunum. Aðeins alkoholið og lyfin sem höfðu bæst í hópinn náðu að slá á ömurleikann. Leikritið mikla er leikið til fulls. Enginn skal sjá sársaukann og skömmina. Stjórnleysið og einbeitingarskortur verður lamandi. Áfengið hættir að virka.

Og þá kom að þessari stund á öðrum degi hvítasunnu á því herrans ári 1999. Alkoholið var hægt að virka. Ég gafst upp.

Ég leitaði til samtakanna sem ég kalla leynifélagið. Þar var mér tekið opnum örmum af fólki sem var búið að feta brautina. Þvílíkt happ, þvílík gæfa að eiga slík samtök.

Ætla ekki að orðlengja það, í skjóli leynifélagsins gat ég horfst í augu við sjálfan mig. Sættst við fortíðina og fengið langþráð frelsi. Það kemur samt ekki að sjálfu sér, maður þarf að hlusta og fara eftir leiðbeiningum þeirra sem hafa gengið götuna á undan. Taka tilsögn og líta í eigin barm. Sporin sem stigin eru , fetar maður ekki einn, heldur með fjöldanum sem hefur tekið þá ákvörðun að viðurkenna vanmátt sinn, gera sér grein fyrir því að eitthvað æðra manni sjálfum fyrirfinnst, hvað sem fólk kýs að kalla það, og að miðla af þeirri reynslu sinni til annara.

Organistinn og tónlistarmaðurinn sem gafst upp í Keflavík fyrir 14 árum er ekki hinn sami í dag. Fyrir 14 árum í sársaukanum og uppgjöfinni fólst nýtt upphaf. Sannarlega varð það svo. Ég fór að feta nýja stigu. Sækja mér þekkingu. Fann fjölina mína. Nú sit ég yfirstýrimaðurinn um borð í skipi mínu, nýjasta skipi BON flotans, nú á írskum sjó, og minnist þess að hafa gefist upp fyrir Bakkusi konungi fyrir svo mörgum árum. Á nýtt líf í dag. Bið um æðruleysi. Finn ró í huganum.  Hlakka til að koma heim til mín til þess sem ég elska. Ég er óendanlega þakklátur. Hið sjálfhverfa líf fortíðarinnar er ekki að heilla mig. Ég hef  fyrir náð leynifélagsins og míns æðri máttar fengið líf sem mig hefði aldrei þorað að dreyma um. Lifi með því sem fortíðin geymir. Það er partur af mér. Sætti mig við það sem ég get ekki breytt. Að geta verið til staðar fyrir sitt fólk og sjálfan sig. Geta fundið fyrir frið í sálinni og óttalaust lagst til hvílu að kveldi dags er dýrmætt. Allt er forgengilegt í heiminum. En augnablikið er okkar. Ég tími ekki að eyða því í þoku áfengis, eða í óttanum. Að geta hlakkað til og njóta sólarinnar er lykill sem ég kýs að halda í. Takk fyrir mig þið öll sem hafa leitt mig áfram. Takk fyrir þið öll sem ég hef þekkt bæði fyrir og eftir. Að tilheyra ,vera partur af því góða samfélagi sem ég hef fengið er mér sem uppspretta og svalar þorstanum. Hjálpar mér að rækta garðinn minn. Hefur vit fyrir mér að greina á milli þess sem ég get breytt og þess sem ég get ekki breytt. Og viðhaldið löngun minni til að hætta að drekka. Þannig getur maður skánað og verið kannski ögninni bærilegri manneskja. Einn dag í einu.


Enn af sjóferðabókum og sofandi stjórnvöldum

Fékk eftirfarandi sent á FB síðu mína frá góðum félaga Sigvalda Torfasyni vélstjóra:

"Einar! Ég fann þessa skýrslu eftir smá Googl. Hún sýnir okkur að ráðamenn hafa verið vakandi yfir því að hafa allt í lagi á pappírunum en minna hefur orðið um efndir á útgáfu á fullnægjandi sjóferðabók. Nú eru rúmlega 41 ár síðan samþykktin tók gildi hér á landi. Spurning hvort þeim takist að draga lappirnar og drolla með framkvæmdina fram hálfrar aldar afmæli undirskriftar :-) Convention concerning Seafarers National Identity Documents, C 27/1970. Kom til framkvæmda 19. febrúar 1961. Hefur gildi gagnvart Íslandi frá 21. október 1971.
----------------------------------------------------------------
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 865 — 577. mál.
Skýrsla
félagsmálaráðherra, Árna Magnússonar, til Alþingis um 89. , 90., 91. og 92 Alþjóða­vinnu­mála­þingin í Genf 2001–2004.
(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)
…
Samþykkt nr. 185, um persónuskírteini sjómanna, var afgreidd á Alþjóðavinnu­mála­þinginu 2003 og kemur í stað samþykktar ILO nr. 108 frá árinu 1958 um sama málefni. Nýja samþykktin gerir meiri kröfur en áður voru gerðar og henni er ætlað að tryggja sjómönnum nauðsynlegt ferðafrelsi og útgerðum athafnafrelsi á tímum hryðjuverka og ýmissa ferðahindrana.
...
Nefnd um persónuskírteini sjómanna.

Ný samþykkt var afgreidd, nr. 185, um persónuskírteini sjómanna. Hún kemur í stað samþykktar ILO nr. 108 frá árinu 1958 um sama málefni. Nýja samþykktin gerir meiri kröfur en áður voru gerðar. Henni er ætlað að tryggja farmönnum nauðsynlegt ferðafrelsi og út­gerðum athafnafrelsi á tímum hryðjuverka og ýmissa ferðahindrana. Í samþykktinni eru settar fram meginreglur sem ber að fylgja við gerð og veitingu sjómannaskírteina. Ítarlegar tæknilegar útfærslur eru í viðaukum við samþykktina. Í samþykktinni eru sértök ákvæði sem heimila breytingar á henni með tiltölulega einföldum hætti. Á þann hátt verður í framtíðinni hægt að laga hana að breyttum kröfum og nýrri tækni. Helsta nýmæli þessarar sam­þykktar er að nýju persónuskírteinin munu geyma fingrafar og lífsýni eiganda. Gert er ráð fyrir að komið verði upp gagnagrunni sem aðildarríkin fái aðgang að, sérstökum tækjabúnaði til þess að lesa skírteinin o.fl., til þess að tryggja að farmenn geti farið frá borði hvar í veröldinni sem er án sérstaks landvistarleyfis og jafnframt að þeim sé heimilt að koma til og ferðast hindrunarlaust um lönd við áhafnaskipti. Allir fulltrúar Íslands, þ.e. frá ríkisstjórn, samtökum atvinnurekenda og launafólks, greiddu samþykktinni atkvæði sitt.

Samþykktin er birt með skýrslu þessari sem fylgiskjal V."

Stjórnvöld hafa vitað af þessu lengi.

Menn skrifuðu undir. Vitneskjan um þessi mál hefur legið fyrir lengi.

Ráðuneytisfólk sem hefur haft þessi mál á hendi hefur EKKI staðið sig í starfi. Höfum ekkert við þannig stjórnsýlu að gera.

Hver er það sem stoppar þetta? Svar óskast sem fyrst!

Strútsaðferðinn að stinga hausnum í sandinn er ákkúrat það sem menn virðast grípa mest til.

Hef verið hugsi hvað ef þetta hefði verið samþykkt sem varðar flugmenn?? Er andsi hræddur um að flugmenn hefðu gripið til aðgerða.

Nú eða ef þetta hefði átt að ná yfir diplómata. Er ansi hræddur um að því hefði verið kippt snarlega í liðinn.

Það sem er hrópandi staðreynd í þessu, er að fyrirlitningin í garð sjómanna í Íslenskri stjórnsýslu, er algjör. Nægir að fara yfir starfsmannalista gömlu siglingarstofnunar til að sjá hversu margir skip- og véstjórnarmenn eru þar við störf. Menn sem hafa sérþekkingu á viðfangsefninu. Nei þar flæða fræðingar um alla ganga, utan 2ja undantekinga.

Nú er lag, Viðhorfinu verður að breyta.
Fjölmiðlar byrji til dæmis á því að aðgreina fiskimenn frá farmönnum þegar þeir fullyrða um tekjur sjómanna og birtið upplýsingar af hæstlaunuðustu fiskimönnum á mestu aflaskipunum.
Það er greinarmunur á því að vera fiskimaður eða farmaður. Sjómaður er samheiti yfir tvær ólíkaar starfstéttir.

Störf farmanna í dag eru hátæknistörf í krefjandi umhverfi í offshore td. Eftirsótt þekking og reynsla og gefur af sér góðar tekjur.

Að stjórnvöld sjái ekki haginn í því að greiða fyrir slíku er með ólíkindum.

Það er eins og menn vilji ekki tekjur okkar inn í hagkerfið. Tekjur sem þar ekki að kosta neinu til, engin virkjun, ekkert umhverfismat, engin röskun. Við förum bara fram á að menn fari að samþykktum og spanderi í skitna sjóferðabók sem kostar brotabrot af umhverfismati einnar virkjunar.

Er ég á villigötum með þennan málflutning? Ég bara spyr.


Sjóferðabækur. Þröngsýnin og heimóttarskapurinn.

Hef verið hugsi vegna umræðunnar um sjóferðabækur.
Allt þetta er hluti af miklu stærra máli og er afsprengi kotungsháttar og landlægs hroka. Hrunið ætlar ekki að kenna stjórvöldum að hugsa útfyrir kassann. Það er ekki bæði sleppt og haldið.
Sjóferðabækurnar eru partur af alþjóðlegum samþykktum og partur af kerfi sem er gert til þess að þjóðirnar geti unnið saman. Sjóferðabækur, diplomataskilríki og þess háttar er hugsað til þess að staðfesta að viðkomandi þjóðríki tekur ábyrgð á einstaklingum ef þörf krefst. Flaggríki skips sem skráir í skiprúm staðfestir einnig sinn hluta ábyrgðar ef þörf krefst.
Nú er það þannig að við störfum í heimi sem er breytingum háður. Pólitískur óstöðugleiki og spilling er viðvarandi á ákveðnum svæðum í veröldinni. Sjóferðabækur gera m.a. mönnum kleyft að geta komist til skips á venjulegrar áritunar í vegabréf ( á ekki við um öll lönd) Eins rétt manna til að ferðast á ákveðnum sjómannamiðum sem eru sveigjanlegri og leyfa meiri farangur. Mörg flugfélög krefjast þess að menn sýni sjóferðabók til staðfestingar á að viðkomandi geti nýtt sér slíka miða.
Svo eru það mörg lönd sem neita mönnum landgöngu án sjóferðabókar.
Allar nágrannaþjóðir okkar eru með sjóferðabækur sem uppfylla skilyrði til þeirra. Frændur okkar Færeyingar eru með slíkar bækur sem eru til fyrirmyndar.
Svo er það hin hliðin.
Fyrir hrun stóð ég fyrir málþingi um íslenska farmannastétt. Og nauðsyn á því að greiða veg íslenskrar farmannastéttar. Leiddi ég að því rök að ef hægt væri að leiðrétta kjör og umhverfi íslenskra farmanna væri það ígildi álvers í stöðugildum.
Nú eftir hrun erum við margir sem störfum í offshore. Sem er alþjóðlegt starfsumhverfi við framkvæmdir í hafi. Mikilvægt er þegar hér er komið að byrja að hugsa um sjómenn í þvi samhengi en ekki að sjómaður = fiskimaður. Góðar tekjur eru það sem við færum inn í landið. Stjórnvöld sjá sér ekki fært að gefa út sjóferðabók til að greiða fyrir okkur þannig að við verðum ekki 2. flokks starfsfólk í þessu alþjóðlega umhverfi.. Við samanlagt erum komnir í álvers ígildi í launum. ENGINN kostnaður við umhverfismat, rammaáætlanir, virkjanir eða framkvæmdir. Störfin eru til staðar. Okkar að grípa þau. Danir nágrannar okkar eru þjóða fremstir að flytja út þekkingu. Til þess að það lánist þá þarf að hugsa út fyrir kassann. Fara eftir samþykktum og lögum og hjálpa því fólki sem hefur haft þann metnað og kjark að bjarga sér og komast í góð störf. Vilja íslensk stjórnvöld að ég sæki um norskt ríkisfang svo ég þurfi ekki að vera færður til hliðar með byssuhlaup í síðunni, vegna þess að ég get ekki fært sönnur á starfsvettvang minn vottaðan af mínum stjórnvöldum?

Snúrublogg 13 ár án áfengis.

Skrýtið að hugsa til baka í dag 26. maí 2012 til dagsins 26. maí 1999.

Sá dagur virðist í senn svo nærri og fjarri. Síðan þennan örlagaríka dag hefur líf mitt tekið algjörum umskiptum. Ég hefði aldrei trúað því á þeim tímapunkti að þróunin hefði orðið á þann veg sem raunin er.

Þegar fokið er í skjólin , hinn barmafulli bikar er tæmdur og barmar hans nagaðir þannig að blæðir undan við hverja snertingu, er vonin víðs fjarri. Veruleikinn er vanmetakennd, ótti og kvíði sem togast á í sálartetrinu. Hugsanirnar sem taka völdin í huganum eru á fleygiferð, líkt og á breiðtjaldi koma hugsanirnar fram í sífellu. Ekkert virðist geta stöðvað þetta nema eitthvað hugbreytandi efni, gjarnan í formi vökva eða tala ekki um huggunarrík lyf læknisins. Þá hægir á þessu um sinn, þar til óminnið tekur við. Það að flýja sjálfan sig inn í þoku vímunnar er ömurlegt.

Allt lífið hefur tekið mið af þessu. Allt miðað að því að geta á auðveldan hátt komist í gerfilausnina. Allar ástæður notaðar fyrir "einum köldum" sem varð sjaldnast einn.

Í veikum mætti reynir maður að stöðva þennan feril með ásetningi, í timburmönnunum og strengir þess heit að hætta þessu. En það hátíðlega heit varir vart daginn á enda. Þá hefur þráhyggjan tekið völdin á ný, breiðtjaldið hefur sýningar á enn einum þættinum af Einari ömurlega og til að geta slökkt á því er gripið til sömu vonlausu ráðanna. Einn kaldur bjór eða gin og tónik. Bara einn sko bara einn. En þráhyggjan hlustar ekki á það og óminnið er handan horns.

Þetta er svo ömurlegt líf. Depurðin og þunglyndið grafa sig inn í hugann. Leikarinn  nær að spila yfir þetta á köflum, sérstaklega í 3. glasa stemmingunni. En sá ofleikur virkar bara út á við, og aðeins um stund.

Ég hafði beygt inn í öngstræti. Framundan fór ljósasturunum fækkandi og aðeins myrkur í endanum, hvað í raun og sann beið í myrkvuðum enda strætisins vissi ég ekki, en ég vissi að það var ekki gott. Örvæntingin jókst. Yfirsnúningur. Stoltið, hrokinn og óttinn ekki gott veganesti... En góðu heilli þá gafst ég upp. Gat ekki meir. Var alveg búinn. Guð hafði rokið upp um rjáfur kirknnanna og ég hafði tekið við því hlutverki líka og bar krossinn og þyrnikórónuna í von um að aðrir sæu þjáningu mína og fórnir.

26 maí 1999 gafst ég upp. Ég leitaði til leynisamtakanna og bað um hjálp.

3 árum síðar tók ég ákvörðun um að fylgja þeim aðferðum sem koma frá sömu samtökum.

Á þessum tíma hef ég fengið gjörsamlega nýtt líf. Ég get ekki lýst því hvað er gott að komast út úr þessum myrkviðum. Og út í ljósið. Að geta lifað einn dag í einu í sátt við sig sjálfan. Minn æðri máttur kom inn í líf mitt að nýju. Hver hann er veit ég varla sjálfur, en ég veit hvað hann er, og það nægir mér.

Líf mitt er ævintýri líkast. Ég er svo óendanlega þakklátur. Í auðmýkt þigg ég það að lifa í náðum. Ég þakka mínum æðri mætti.  Ég þarf að halda mig í þessum farvegi. Sjúkdómurinn liggur í leyni og slær áður en varir. Það sem ég þarf að gera, einn dag í einu, er að viðhalda löngun minni til betra lífs og fylgja þessum einföldu reglum sem felast í lausninni. Og viðhalda vitundarsambandi mínu við minn æðri mátt og annað fólk sem lifir í lausninni.

Lífið er svo allt öðruvísi en ég hafði nokkurntíma planað og hugsað mér. Ég er á starfsvettvangi sem ég blómstra í og nýt í botn, í starfi sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér fyrir 13 árum. Á líf sem gefur mér svo mikið. Er í sambandi sem er ekki á mínum sjálfhverfu forsendum heldur þar sem við báðir fáum rúm og tóm til að blómstra. Við eigum heimili í 2 heimsálfum og njótum beggja.

Allt er þetta hægt fyrir alla. Bara að þiggja þá lausn sem er í boði og að feta veg sem svo margir hafa gengið á undan. Veg sem er byggður á reynslu og æðri handleiðslu. Copy of Thailand feb og mars 2012 102

 Ef þú ert á þeim stað sem ég var á fyrir 13 árum þá er þér þessi leið fær, Bara að rétta út höndina og tala við eitthvert okkar í leynifélaginu. Við munum leiða þig. Það eina sem þú þarft að leggja til málanna er viljinn til að hætta, viljinn til að  fara út úr svartnættinu.

Takk fyrir mig.


11 ár án áfengis 10 án tóbaks. Snúrublogg.

IMG_1982Hef  ekki dottið í  það á öldinni! Og langar það ekki.  Í dag hef ég verið án áfengis í 11 ár. Sit hérna i brúnni á ARIES LORD sumarótt í Norðursjó. Máninn fullur gægist inn um afturgluggana á brúnni. Mikið er ég þakklátur og feginn.

En:

Þegar allt fer að snúast um stað og stund til að nota þetta stöff allt saman.

 Sjálfsöryggið vikið fyrir nagandi ótta og kvíða. Lausnin felst í 3.  glass fílingnum, það augnablik sem allt verður gott. 

Þegar ekki er hægt að slaka á án þess að notast við áfengi - eða tóbak.

Þegar maður er tilbúinn að leggja mikið á sig til að nálgast þetta.

Þegar það hefur forgang að hafa þetta með sér hvert sem maður fer.

Þegar þetta hættir að vera gaman og er orðið að flóttaleið.

Þegar hrokinn fer að vera eina tilfinningin.

Þegar maður verður nafli alheimsins, sjálfhverfur , eigingjarn og frekur.

Þegar sjálfsvorkunin og öfundin verður normalt ástand

Þegar sjálfsmatið er orðið lægra en klósettið.

Þegar maður lítur ekki lengur glaðan dag.

Þegar maður veit að það er eitthvað mikið að, en getur ekki fest á það fingur.

Þegar taugarnar eru búnar.

Þegar maður missir tökin......

Þá:

Er  kominn tími á að horfast í augu við staðreyndirnar og möguleikana í stöðunni, en þeir eru 3:

1.      Geðveiki

2.      Dauði

3.      Uppgjöf.

Ég valdi númer 3 og leitaði mér hjálpar.

Í 3 ár dvaldi ég í uppgjöfinni og talaði án þess að hlusta. Klúðraði meira og gerði mér grein fyrir því að það þarf að þiggja ákveðna lausn, til að geta lifað lífinu án stjórnleysis og gremju.

Þá þáði ég lausn 12. Sporanna í leynifélaginu góða. Gerði uppgjör og reikninsskil.

Þá hófst mitt líf fyrir alvöru. Loforð 12 sporanna hafa komið til mín.

Þess vegna: 

 Er ég hér.

Í  starfi  sem ég nýt, sem ég valdi að læra til í lausninni. 

Í  sambandi þar sem ég má elska og vera elskaður.

Í þeirri aðstöðu að hlakka til framtíðarinnar.

Í ástandi til að taka leiðsögn og gagnrýni og þurfa ekki að vita allt og kunna allt.

Í heimi þar sem ég þarf ekki að vera fullkominn.

Að sjá möguleika en ekki hindranir.

Í 12. Sporunum áfram. Það er lykillinn að því að fá að upplifa frábært líf og fallega hluti.Til þess þarf ég leynifélagið. Aðra alka, ykkur vini mína og félaga og síðast en ekki æðri mátt minn sem ég kalla Guð.

Verð seint fullkominn, en vonandi skárri manneskja í dag, en í gær.

Það er gott að fá að vera sandkorn í eilífðinni, verða partur af þessari yndislegu tilveru.

Takk yndislega fólk, takk LEYNDÓ, Takk GUÐ.  


Eigingirnin og sjálfelska í hæstu hæðum.

Maðurinn veit að þjóðin öll vill fá svör. Hann veit það líka að fólkii blæðir eftir að sparifé þess var brennt á græðgishaugnum, hvar hann kynti manna menst undir.

Hann greinilega er eins og þeir sem lengst eru gengnir í sérplægninni.

Það er aumt að sjá að menn geti ekki unnt okkur alþýðu þessa lands að fá heiðarlegt uppgjör. Hann veit að með þessari hegðun sinni er hann að reyna að eyðileggja það að við getum sættst við þessi ósköp.

Hann undirstrikar það að hann traðkar ofan á þeim sem blæðir með þessari framkomu. Hann ræður til sín lögmann sem þekktur er af því að verja stórglæpamenn, það segir mér nóg.

Aumkvunarvert er að horfa upp á þessa niðurlægingu.


mbl.is Sigurður vill tryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Einar Örn Einarsson

Höfundur

Einar Örn Einarsson
Einar Örn Einarsson

Starfa meira á sjó en á landi. Skagamaður brottfluttur, en alltaf Skagamaður samt  Skipstjórnarmaður og stoltur af því, tónlistarmaður líka.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 13238955 10209925009990683 1077508870570553214 n
  • 11147146 10155663157855151 374052219909610049 n
  • 11147146 10155663157855151 374052219909610049 n
  • IMG_3755
  • Rainbow in moonlight

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband